Sagan

Saga Borðeyrar

Tangahús var upphaflega reist 1928 af Verslunarfélagi Hrútfirðinga. Nafni Verslunarfélagsins var breytt 1940 og eftir það kallað Kaupfélag.  Grunnflötur Tangahúss er talinn 152 fermetrar, þrjár hæðir og áætlaður byggingarkostnaður 1928 var 21 þúsund krónur.

Kaupfélagshúsið á Borðeyri

Mynd frá um 1928-1930. Á henni sjást sláturhús, byggt 1914 af Riis-verslun. Viðirnir í það komu tilsniðnir frá Noregi, Tangahús byggt 1928 (neðst á tanganum), þar fyrir vestan Sýslumannshúsið (þar bjó Halldór K. Júlíusson sýslumaður á árunum 1908-1938). Þetta hús fór í brunanum mikla 27. febrúar 1941. Þar fyrir aftan s.k. Sýslumannsfjós. Vestur af Sýslumannshúsi er Verslunarhús Riis-verslunar. Það fór einnig í brunanum 27. febrúar 1941.

Húsið rúmaði sölubúð, vörugeymslur og skrifstofu kaupfélagsins auk íbúðar fyrir kaupfélagsstjóra félagsins. Þótti í upphafi reisuleg bygging og setti svip á staðinn. Á framhlið (vesturhlið) hússins voru stórir upphleyptir stafir, þar stóð:

VERSLUNARFÉLAG HRÚTFIRÐINGA 1928

Aðeins útveggir voru steyptir, öll gólf og skilrúm voru úr timbri. Seint í janúar 1931 kviknaði í húsinu út frá olíulampa og brann það til kaldra kola. Brunarústirnar stóðu óhreyfðar um árabil og voru nýttar sem kolageymsla. 

1951 var byggt yfir nyrðri hluta rústanna og 1978 yfir syðri hlutann og fékk húsið þá þann svip sem það hefur í dag. Við endurbygginguna voru útveggirnir lækkaðir nokkuð, sem nam steyptum kanti eða brík sem var á húsinu í upphafi eins og þakskegg, einnig var dyrum dálítið breytt en talið er að flestir gluggar séu eins.

Árið 2004 kaupa Ásdís Guðmundsdóttir og Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir Tangahús og hefjast þegar handa við að koma því í það horf að geta boðið upp á heimilislega og hagkvæma gistingu fyrir hverja þá sem á þurfa að halda.