Náttúrufar

Hrútafjörður gengur inn úr Húnaflóa til suðurs og er u.þ.b. 36 kílómetra langur.  Er hann talinn einn af lengstu fjörðum á Íslandi.  Hann gengur inn á milli Guðlaugshöfða og Heggstaðaness og er um 6-7 kílómetra breiður í mynninu (var áður mælt í viku sjávar), en mjókkar ört er innar dregur.  Fjörðurinn er um 70-80 metra djúpur yst en kringum 30 metrar innan til.  Siglingaleiðin inn fjörðinn er þröng og ekki bein vegna sandrifja og skerja og því ekki vandræðalaust fyrir ókunnuga að sigla inn til Borðeyrar.  Til marks um þetta neituðu einokunarkaupmenn að sigla þangað, báru við óhreinni skipaleið inn Hrútafjörð, ásamt íshættu. 

 Byggðin á vesturströndinni kallast Bæjarhreppur og er syðsta sveitarfélagið á Ströndum.  Við austanverðan fjörðinn hét áður Staðarhreppur, en er nú hluti af sveitarfélaginu Húnaþingi vestra.

Mörk Stranda og Húnaþings vestra og þar með einnig mörk Vestfjarða og Norðurlands liggja upp frá botni Hrútafjarðar með Hrútafjarðará upp á Holtavörðuheiði.

Jarðmyndanir

Vestfirðir eru svo að segja eitt samfellt blágrýtissvæði.  Sama er að segja um Strandasýslu (þ.m.t. Hrútafjörð).  Bergtegundin þar er aðallega blágrýti.  Berglögunum hallar að mestu til suðausturs um 3-6 gráður.  Jarðsagan segir okkur að blágrýtismyndunin hafi orðið á tertíer-tímabilinu, þ.e. fyrir 3,3-8,5 milljónum ára.  Tertíer-tímabilið er talið hafa verið hlýrra en nú er, enginn ís og meiri skógar.  Blágrýtismyndunin íslenska er að mestu úr hraunlögum.  Flest gosin hafa komið upp í gossprungum, eldkeilum eða dyngjum.  Einstaka eldstöðvar eru sjaldséðar nú, ástæða þess er að gígveggirnir hafa oft máðst áður en næsta hraunlag lagðist ofaná.  Tertíeri hraunlagastaflinn hefur að mestu hlaðist upp í hraun-eða flæðigosum.  Í hraunlagastaflanum er nokkuð um fornar "eldkeilur" eða s.k. megineldstöðvar, sem huldar eru yngri hraunlögum.  Alls eru þekktar um 50 megineldstöðvar sem hafa verið virkar á Íslandi.  Í Hrútafirði er þekkt megineldstöð frá tertíer-tímabilinu. 

Eldstöðvum af þessari gerð svipar mjög til eldfjalla eins og Kröflu eða Öskju að þróun og gerð.  Þær eiga sitt upphaf, eldast og þroskast og mynda keilulaga eldfjall sem rís um 1000 m yfir umhverfið.  Þegar líða fer á seinni hluta ævi þeirra verða mikil eldgos sem tæma að hluta eða mestu leyti kvikuhólf undir þeim.  Miðja þeirra hrapar niður og askja myndast.  Gosefnin í þessari hrinu eru að mestu líparít.  Askjan er oftast um 10 km í þvermál og getur verið 500-1000 m djúp.  Í öskjunni er vanalega um tíma stöðuvatn, svipað og Öskjuvatn í dag.  Eldgos verða í vatninu og myndast þá móberg en ekki hraun.  Aftur á móti renna hraun inn í öskjuna, oft niður brattar skriðurunnar hlíðar.  Með tímanum ná gosefnin að barmafylla öskjuna og eldfjallið grefst smátt og smátt undir yngri hraun.  (Haukur Jóhannesson, 1997).

Jarðhiti er á tveimur stöðum (að því er vitað er) á jaðri hinnar fornu megineldstöðvar, á Reykjum austan fjarðar og vestan hans við bæinn Laugarholt. (Blái hringurinn, sá ytri markar óðal megineldstöðvarinnar í Hrútafirði.  Innri hringurinn er sjálf askjan.  Sjá kort).

Þótt blágrýti sé hin ríkjandi bergtegund í Hrútafirði finnst bæði líparít og móberg á svæði megineldstöðvarinnar.  Móberg finnst einnig í litlu mæli í Hrútafjarðarárgili.  Í Tröllakirkju (1001 m.y.s.) er talið vera ísúrt og basískt gosberg og setlög frá síð-plíósen og f.h. ísaldar (0,7-3,1 milljón ára).  Talið er að drjúgur hluti strandlengjunnar (í Hrútafirði vestanverðum) hafi verið undir sjó í ísaldarlok, þ.e. fyrir rúmlega 10.000 árum.  Nútími er almennt talinn hefjast þá og stendur enn í jarðsögulegu tímatali eins og nafnið gefur til kynna.  Við hafningu landsins, er ísaldarjökulfarginu létti breyttist ásýnd landsins víða, m.a. í Hrútafirði.  Stórir malarbakkar sjást frá Víkum inn með öllum firði alveg suður að Melum.  Til marks um sjávarstöðu fyrr á tímum hafa fundist hvalbein á Vikurdal (langa leið frá sjó) og rekadrumbar í börðum langt frá fjöruborði víða inn með firðinum.  Nákuðungslög eru og við Bæ í Hrútafirði.  Þau eru vitnisburður um hlýrri sjó en nú.  Þetta eru merk sjávarsetlög með skeldýraleifum frá nútíma, að því er talið er.  Þau eru á náttúruminjaskrá.   Stór jökulborin björg nefnast "Grettistök".  Eitt slíkt er merkt inn á landafræðikort útgefnu í Kaupmannahöfn 1941.  Það mun hafa verið miðja vegu milli Valdasteinsstaða og Borðeyrar, nálægt núverandi vegastæði.  Það hefur af einhverjum ástæðum spillst og sjást þess ekki merki nú.

Jarðvegur

Mest er um votlendisjarðveg í Hrútafirði eins og algengt er á blágrýtissvæðum.  Það tengist grunnvatnsstöðu og hún svo aftur gljúpleika landsins.  Berggerðin, þ.e. blágrýtið er þétt í sér og grunnvatnsstaðan því hærri en víðast hvar á móbergs- og hraunasvæðum þar sem þurrlendisjarðvegur er algengari sökum þess hve yfirborðsvatn smýgur hindrunarlítið niður.  Lofthiti er ekki hár í Hrútafirði (frekar en á Íslandi öllu) og efnaveðrun hæg.  Af þeirri ástæðu losnar treglega un næringarsölt úr bergmylsnunni, það má rekja fosfórskort í íslenskum jarðvegi til þessa.  Bændur bera fosfór á tún á vorin í formi tilbúins áburðar til að mæta þessari vöntun.

Ásýnd lands

Ásýnd landslags í Hrútafirði beggja vegna fjarðar eru lág fjöll, eða öllu heldur aflíðandi, grösugir hálsar.  Hæðin er óvíða yfir 300 m.y.s.  Klettabrúnir eru varla að sjá.  Nokkrir grunnir dalir liggja upp frá ströndinni og var áður byggð í flestum þeirra.  Pétur Jónsson frá Stökkum lýsir landinu (í Hrútafirði) þannig í Strandamannabók:  "Að sumrinu er land þetta einkar sviphýrt og brosandi, en ekki að sama skapi svipmikið og hrífandi"

Er víst að landið er grösugt og ágætlega fallið til sauðfjárræktar og er óvíða talið betra á landinu.  Mólendi og graslendi (ræktað land) er meðfram nær öllum firðinum en upp frá því tekur víðast við votlendi.  Mosagróður er í litlu mæli á þessu svæði.  Berjalönd eru ekki mikil og þá helst krækiber það sem það er.  Skógar eru engir, en trjárækt lítillega stunduð, þá helst er reynt við víðitegundir í formi skjólbeltaræktunar.

Dýralíf

Flest ísl. húsdýrin,ef ekki öll finnast í Hrútafirði, í mismiklu mæli þó (sauðfjárrækt er mest stunduð, það gera landkostirnir).  Fuglalíf verður að teljast fremur fjölskrúðugt, bæði land-og sjófugla, en sú tegund sem augað nemur hvað mest er æðarfuglinn.  Selir sjást oft á skerjum.  Selveiði var löngum stunduð frá nokkrum bæjum í Hrútafirði.  Vart verður við smáhveli t.d. hnýsur inn með öllum firði, er það helst í logni.  Þá heyrast blásturshljóðin frá þeim jafnvel heim að bæ.  Minkar og tófur gera vart við sig á hverju ári og eru stundaðar veiðar á þeim, kostaðar af ríki og sveitarfélögum.

Veðrátta

Trúlega verður að teljast heldur næðingssamt í Hrútafirði, þó engin byljaveður, vegna þess hve fjöllin eru lág og mynda engar brúnir.  Norðanáttin er köldust, er vindur stendur af hafi, en sunnanáttin hvað hlýjust (hlýnar á ferð sinni yfir landið).  Þetta er ekki snjóþungt svæði og rigningardagar mun færri en sunnanlands, ef það er borið saman.  Sjávarhiti hefur allsstaðar sýnileg áhrif á lofthita, því verður hitamismunur meiri er fjær dregur sjó.  Sjórinn dregur oftast úr sumarhitanum og gerir veturinn mildari og jafnar lofthitann árið um kring.  Það á við um Hrútafjörð.

(Þemaverkefni "Náttúrufar verknámsstaðar" unnið af Ingibjörgu Rósu Auðunsdóttur við ferðamáladeild Hólaskóla, Háskólann á Hólum sumar 2006).